Eilífðardraumurinn/draumur í straumi

10 Október, 2008:
Næst verður kynnt video. Up and coming: Videos of the summer's sculptural project.
Details TBA.

Floating sculpture in an Icelandic river from Olafur Thordarson on Vimeo.

Mynd tekin 20 september:

12. September, 2008
Fyrir opnunina í gær:

Ég vil byrja á því að þakka öllum hér fyrir komuna.

Þetta verk er steypt í polyurethane kvoðu – alls um 6 tonn og er tæpir 12m á lengd.

Verkið var steypt á hvolfi, þannig að eiginleikar efnisins eru nýttir til að kalla fram myndbirtingu upp úr vatninu, birtist á yfirborði þess. Verkið tekur á sig lögun, form, sem er mynd af einhvers konar bát.

Lagskipting fjallanna umhverfis kallast á við strata í uppbyggingu verksins, lagskiptann öldugang í yfirborði þess. Sumpart líkt hraunum sem hafa runnið úr iðrum jarðar þá er steypuferillinn myndfestur. 3000 hrærum af polyurethane hellt í mótið, hver og ein er sjálfstæð blanda, pensilfar í þessari mynd af fley.

Það mætti líka segja að verkið sé að sumu leyti eins og hlutamynd af gasmikilli plánetu. Lagskipt, lárétt hreyfiverk sem er kjurrt en á hreyfingu. Myndbirting efnis sem er á ferð um endalausann geim. Efni sem er sjálft frosið í hreyfingu.

Vatnsflæðið mætir ákveðinni væntingu við munna ganganna, sem felst í svona eilífðardraumi.

Með tímanum breytist verkið, litirnir breytast og það verur brúnna, á hraða sem augað fær ekki séð.

Vinnumótið er hluti af verkinu. Í það var verkið sjálft mótað, hér er hamur myndbirtingarinnar. Með tímanum fær vinnumótið að veðrast, spýturnar að grána eins og í réttum, blikkið að ryðga eins og fallin húsaþök rústa úr fortíð manngerðs landslags.

Í heild sinni er það lesning verksins sem máli skiptir. Það er verk á ferð án þess að hreyfast. Það er mynd af verki á hreyfingu, á kjurri hreyfingu. Það er skírskotun í gildi tíma, hraða og rýmis. Með upplifun á verkinu er það von mín að áhorfandinn skynji hreyfingu þess, vatnsins, og að í raun eru við öll á fleygiferð, jörðin um óendanleika alheimsins.

Að vissu leyti er verkið meðvitund okkar. Að stærra leyti metafor fyrir þjóðarskútuna, þar sem sýn of vinna fyrir bættari lífsgæðum birtist í straumi daglegs amsturs oft í einhverri plastinnpökkun. Þetta er draumur í straumi.

Ég vona að þetta hógværa verk sé jákvætt innlegg í þau merkilegu nauðsynlegu mannvirki sem það er hluti af.

Þakkir til: Frábærum starfsmönnum LV, Sævari Jónssyni og hans góða starfsfólki.
(Tala smá um Seyðisfjörð)11. September, 2008
OPNUN-vígsla verks á eftir. Eitthvað hef ég forkælst í rigningunnni í gær. Breytir minningu þessarar dagsetningar fyrir mig, en fyrir 7 árum var maður að hlaupa undan rykskýi hrynjandi háhýsa.


10. September, 2008
Sævar og hans menn fóru í dag með verkið uppeftir. Stöguðum af mótið til bráðabirgða. Það var þvílík úrhellisrigning að maður er gegnumblautur eftir daginn. Fjarðarheiðin var með slíkri þoku að ég rétt sá máluðu strikin á veginum, ekki nema 2-3m fyrir framan bílinn.


9. September, 2008
Tilkynning: Opnun verður 11. September kl. 16:00. Veitingar skömmu seinna í starfsmannahúsi Fljótsdalssstöðvar. Ef þið viljið þyggja boð um að vera viðstödd, vinsamlega sendið póst á Þórey hjá Landsvirkjun; thorey@lv.is


28. Ágúst, 2008
Í dag settum við verkið á flot í rennunni við slipinn í Seyðisfirði. Það flaut eins og átti að gera og nú er óvissan með flotið farin. Nú er að klára að snurfusa ýmsa þætti til að klára vinnuna og koma svo verkinu á sinn stað. Set ekki mynd með, því menn geta séð verkið á opnuninni, sem verður innan fárra vikna. Sævar Jónsson stóð sig með prýði og hefur unnið frábæra vinnu. Það setti strik í reikninginn að þegar ég tékkaði á tölvupósti fyrir svefninn fékk ég þær fréttir að góðvinur minn í New York Michael Graves dó í nótt. Þar fór góður vinur.


25. Ágúst, 2008
Ekki var sjósett í dag heldur, verið er að vinna í að koma verkinu örugglega á pall sem getur flutt það úr húsi. Það eru um sex tonn og tólf metrar á lengd. Spurning hvort á annað borð séu til stærri listaverk úr polyurethane kvoðu? Krækti mér í hálsbólgu um helgina, var rúmliggjandi hluta af deginum.


23. Ágúst, 2008
Ætlunin var að sjósetja í dag, Laugardag, en vegna ófyrirsjáanlegra hluta frestast það fram á Mánudag. Fór því upp að útfalli og ákvað nákvæma staðsetningu á verkinu. Held þetta komi mjög vel út.


22. Ágúst, 2008
Höldum áfram að snurfusa verkið og sprungufylla smærri staði.


21. Ágúst, 2008
Höldum áfram að hreinsa verkið og svo var það lakkað með fyrstu umferð í lok dagsins.

20. Ágúst, 2008
Kláruðum að opna mótið, verkið hangir núna ofan úr loftinu í keðjum, 6 tonna flykki. Lítur einstaklega vel út!
Byrjuðum á að snurfusa verkið, fjarlægja plastefni sem eru af ásettu ráði föst við verkið, snitta af steypuhala ofl. Handrið tekið af mótinu. Myndin að neðan tekin með fish eye linsu sem gerir hlutina bogadregnari.

19. Ágúst, 2008
Kláruðum að bera á botninn og opnuðum mótið að hluta til. Verkið lítur vel út, það sem hægt er að skoða. Litið sjáanlegt af sprungum.


18. Ágúst, 2008
Undirbúum að opna mótið og að lakk-verja botninn til öryggis. Hreinsun alls kyns tækja og tóla af móti, þ.m.t. taka í sundur lofthreinsibúnað.

Að neðan er vinnustígvél mín eftir steypuvinnuna.
15. Ágúst, 2008
Mótið er núna fullt, þetta er afar áhugavert. Polyurethane efnið þenst mikið út en skreppur svo saman með þvílíkum krafti að teinar stálgrindarinnar eru bognir. Skoðum með að opna mótið á morgun eða Mánudag.
Að neðan er THE TEAM fyrir framan tunnur sem í voru sex tonn af polyurethane kvoðu: f.v. Undirritaður, Saulus, Arthuros, Sævar Jónsson, Haraldur Már Sigurðsson, Páll Baldvinsson og Viggo.

13. Ágúst, 2008
Nú fyllir polyureþanið mótið, hef ekki enn talið hversu mörg tonn þetta eru í allt. Eftir er að snurfusa síðustu lagskiptinguna, efnið í sjálfum botninum. Verkið verður litríkara fyrst um sinn en breytist með tímanum og verður brúnleitt. Þessi breyting ætti að vera áhugaverð, umhverfið að hafa sín áhrif á það og eðlilegt útlit efnisins eins og það lítur út með áhrifum náttúrunnar umhverfis.

11. Ágúst, 2008
Katalistinn í efninu fer af stað og Palli hífir fötuna upp til mín. Ég hræri hana betur og heli ofan í mótið áður en freyðir upp fyrir. Mám saman fylla hrærurnar upp í mótið og ná brátt toppnum.


9. Ágúst, 2008
Kunningi spurði mig hversu margar sjómílur verkið myndi sigla á ári. Ég sagði engar. En er það rétt? 


8. Ágúst, 2008
Það er eins og maður sé byrjaður að búa ofan á mótinu. Nú hef ég ekki tekið mér frídag í 2 vikur og er það farið að segja til sín. Mér reiknaðist til í dag að við værum búnir að steypa um 2,5 tonn af polyurethane kvoðu síðan sl. Laugardag, og að verkið gæti endað í ca 5 tonnum í allt. Kalla það gott að ég hef einungis fengið einn dropa af polyurethane á hendina. Loftræstikerfið virkar framar vonum og næstum öll útgufun fer út í gegnum þar til gerð rör og viftur. Þegar ég slekk á loftræstikerfinu á kvöldin finnur maður strax hvað það er skilvirkt. Litir og steypuaðferðir eru smátt og smátt að fæðast eftir því sem verkið hleðst upp ofan í mótinu. Í dag kom Arnaldur Indriðason í heimsókn ásamt fríðu föruneyti. Þau voru hugrökk mjög og klifruðu upp á mótið.


6. Ágúst, 2008
Nú er dekkið steypt og að mestu komin mynd á það ofan í mótinu. Hér er smá video af því, en um 2,5m eru frá myndavél ofan að yfirborðinu sem steypt er.


VIDEO
5. Ágúst, 2008
Er að steypa "dekkið" með ýmsum litabrigðum og efnið hellist í eins og hraun sem rennur yfir landslag. Mótið er eiginlega orðið þetta landslag og það sem á endanum sést er svona eins og horft undir hraunrennsli. Þetta helst í hendur við mín fyrri verk, t.a.m. Hönd í Belg lampann og slump tests, s.s. Negative faces frá ca 1989. Auðvitað byrjaði svona slump í polyurethane formi árið 1964, sem listfræðingurinn góði Aðalsteinn Ingólfsson var svo almennilegur að finna fyrir mig. En vissulega er hér um ólíka hluti að ræða, en það leynist jarðfræði í þeim báðum:

Stóll eftir Gunnar Aagaard Andersen, Danmörk, 1964.


2. Ágúst, 2008
Steypuvinnan er byrjuð. Það tók 3 daga að undirbúa stálgrindina undir steypuvinnu. Við settum hana í mótið, lokuðum því svo með ýmsum hundakúnstum og komum fyrir loftræstikerfinu, sem er einfaldara en mig grunaði. Við erum með þrjár viftur, eina fyrir blönduborðið, eina fyrir litablönduborðið og eina stóra í mótið sjálft. Byrjuðum svo að steypa eftir hádegi í dag. Það er auðvitað hús-lögunuin sem byrjað er á, þakið, efsti hluti skúlptúrsins.


29. Júlí, 2008
Nú er stálvinnan að verða tilbúin í skúlptúrnum. Í gær voru Palli og Viggó stálsmiðir að máta tæplega 11m. langa burðargrind í mótið. Grindin var svo tekin út aftur eins og sést á þessu VIDEÓ-I. Ég er farinn að iða í skinninu með að steypa polyureþanið, en eftir að stálgrindin klárast get ég undirbúið grindina undir steypu. Það verður mikil vinna og allt fram að þessu hefur verið eins og að strekkja striga á ramma. Vonandi "málum við" á Föstudaginn.


(Photo by Shaun Krupa)
27. Júlí, 2008
Hér er mynd af útfallinu, þar sem skúlptúrinn verður staðsettur. Vatnið kemur út úr fjallinu og straumur þess er jafn og þungur. Hringiður mótast. Vatnsyfirborðið er um 43m breitt.
Shaun tók svo þessa mynd af mér við fallegann steinboga, rétt sunnan við Hallormsstaðarskóg. Ekki alveg viss um að brúin bæti náttúrusmíðina. 


Tók svo þessa fínu mynd uppi hjá Kárahnjúkastíflu. Uppáhaldsviðfangsefni mitt undanfarið er einmitt skýjafarið, sumir vilja sjá rigningu og sudda þar sem ég vil sjá stórkostlegar myndanir í andrúmsloftinu. Enginn málari eða ljósmyndari getur náð þessum áhrifum. Það var óneitanlega svolítið skrýtið að standa við 200m djúpt manngert vatnsborð lengst uppi á fjöllum. Hvasst var og í fjarlægð mátti greina smá rykblástur á ströndum hálslóns. Svona eins og ef bíll keyrir þar um eins og á malarvegi. En þetta mannaverk í náttúrunni er auðvitað hálfgert undraverk. Í stórbrotinni náttúru austurlands hverfur það næstum í stærðinni. Það tók um klukkustund að keyra þangað úr Fljótsdalnum og með ólíkindum að það séu boruð göng og vatni hleypt um alla þessa vegalengd. Orð útlenskrar listakonu lýsa þessu sem "svörtum bletti" á Íslandi, svartir blettir eru alveg eins hraðbrautarkerfið í Reykjavík, stórar uppfylingar í fjörðum eða þá Britney Spears áhrif á íslenskann kúltúr. Annað blogg. 22. Júlí, 2008
Stefnt er á að klára járngrindina á næstu dögum. Viggó er á fullu að sjóða og spæna járn. Þarna er hann að fela sig á bak við loftræstitækið. Hann segist hafa smíðað "500 milljón tonna skip" í Rússlandi. Og þetta sé í besta falli árabátur. Þolinmæðin vinnur þrautir allar, hann er feykiduglegur og röskur með afbrigðum.


20. Júlí, 2008
Tók þessa mynd ofan af Bjólfi, fjallinu NV megin í Seyðisfirði. Sumir geta slysast til að ná ágætum myndum við og við.


18. Júlí, 2008
Ian að vinna ofan í mótinu. Síðasti dagurinn hans í dag.
17. Júlí, 2008
Hér sést hliðarmynd af mótinu. Verkið er steypt á hvolfi og mótið úr trégrind og blikki.
15. Júlí, 2008
Í dag var skv fyrstu áætlun steypudagur á polyúreþaninu. Hann verður nú að bíða eitthvað vegna ýmissa mála.14. Júlí, 2008
Jæja, þá eru þeir byrjaðir á styrktargrindinni. Vonandi klárast hún sem fyrst, þetta er ca 11m. járngrind/trussa. Viggó og Palli að vinna á fullu.11. Júlí, 2008
Fleyttum test stykkinu í höfninni á Seyðisfirði. Það kom ágætlega út og flaut með prýði. Þetta er nú þokkalega stórt og þungt, sjá fæturna á Shaun. Setti inn smá VIDEO.


10. Júlí, 2008
Kláraði steypu á test stykki, ca 180 x 90 x 90 cm. Þetta eru mismunandi gerðir af kvoðunni, steyptar á tréramma, með í huga að sjá fram á efnishegðan, til að fá rétta hreyfingu í efnið. Á endanum verður það eins og efnið komi upp úr vatninu og móti þessa mynd af bát. Svo með tímanum verður efnið brúnna á lit. Jafnvel á 6 mán - 2 árum.


Mánudagur 23. Júní, 2008
Járnvinnan miðast ágætlega, nú erum við búnir að dekka ca 85% af innviðum/mótalögun. Í lok þessarar viku ætti járnavinnan eða lögun verksins að klárast. Þá erum við enn á áætlun með verkið, nokkurn veginn upp á dag. Það er þó svoldið eftir með að snurfusa blikkið, enda getur verið tímafrekt að fínisera og fá listina í smíðina. Óregluleg lögun er vísir á mynd í mótun.
Miðvikudagur 18. Júní, 2008
Áttum fund saman, við Sævar Jónsson og Kristinn Erlingsson LV verkfræðingur. Fórum yfir verkfræðiþætti, m.a. trussu, flotmál, lökk ofl. Sævar reynist einstaklega vel og úrræðagóður mjög.

Laugardagur 14. Júní, 2008
Loksins kom blikkið og við komnir aftur af stað með verkið.

Þriðjudagur 10. Júní, 2008
Þessa dagana, meðan við bíðum eftir blikkinu, vinnum við að líkani af stálgrind sem fer inn í verkið. Hér er hönnun hennar, uppkast #2:

Mánudagur 9. Júní, 2008
Gef strákunum frí í dag, fáum meira blikk á Miðvikudaginn og þá fara þeir aftur í puðið, hnoðið og beyglun.

Sunnudagur 8. Júní, 2008
Við Lilja fórum saman í reiðhjólaferð út Seyðisfjörðinn. Eyddum deginum í rústum eyðijarðar og Lilja fékk að grúska, skoða fiðrildi, flugur, kóngulær, skítaflugur auk fossa og húsarústa. Einstaklega skemmtilegt og svo hitti hún tvær stelpur á svipuðu reiki og var eitthvað spjallað saman.
Föstudagur 6. Júní, 2008
Gaf öllum frí í dag meðan ég er að melta verkið. Kannski Mánudaginn líka. Verið var að stinga upp á hvort það sé ekki rétt að fara út í koparvinnu í stað blikksins, en ég held það sé vafamál. Kannski í öðru verki.

Mótið, sem skilið verður eftir á bakkanum, er eins og skel, hreiður, gömul mannvirki í náttúru Íslands. Eitthvað sem er til en var mikilvægur hlekkur. Hefur getið af sér afkvæmi, verpt, mótað. Veðrun á því er mikilvægt atriði, sennilega eðlilegasta veðrun að járnið fái að ryðga, spýturnar grána. Eitthvað í þeim dúr og sést á ljósmynd minni úr húsarúst bæjarins Foss á Vestdalseyri:

Fimmtudagur 5. Júní, 2008.
Í dag fer Donna til baka til New York og Lilja verður eftir hjá mér þar til í byrjun Júlí. Mér sýnist járnplöturnar vera að klárast.


Miðvikudagur 4. Júní, 2008.
Blikkvinnan gengur hraðar og nú er að ákveða hvort nota eigi kopar eða blikk. Koparinn er þó helst til dýr og spurning hvort dýrt efni sé viðeigandi í mótið sjálft.

Mánudagur 2. Júní, 2008.
Byrjum vinnu í blikkinu. Þetta er svolítið snúið en gerði ráð fyrir svolitlu mausi í þessum þætti. Geri ráð fyrir mánaðarvinnu í þessu. Allir mínir menn standa sig með prýði og vinna vel og hratt.

Sunnudagur 1. Júní, 2008
Hér er mikil gleði, endurfundir okkar Donnu og Lilju. Það er skrýtið að fara frá sínum í heilann mánuð í senn. Lilja byrjar á leikskólanum á morgun, vonandi líkar henni vel þar.


Föstudagur 30. Maí, 2008.
Söguðum mótið í tvennt og aðskildum helmingana með vinnupalli í miðju. Undirbúum aðstöðu til að vinna í blikkinu sem mótar lögun verksins.
[MYND]

Mán-Fim 26-29. Maí, 2008.
Áframhaldandi trésmíðar, þilfarið handriðið og flestir prófílar kláraðir. Sem og stífur ýmsar. Tókum myndir af okkur inni í báts-mótinu sjálfu. Að neðan sést fv. Ian, David, undirritaður og Shaun.
Fim-Föstudagur 22-23. Maí, 2008.
Smíðuðum "utanáliggjandi þilfar" á mótið, byrjuðum á handriði ofan á því og ýmsa prófíla innan í því.

Nú er mótið orðið ca 12,5 x 4,2 x 4,2m á stærð og á stærð við lítið hús.
Miðvikudagur 21. Maí, 2008.
Reistum alla 16 ramma á þykkum gólflistum.

Þriðjudagur 20. Maí, 2008.
Eyddum deginum í að saga út formið í rammana 16. Gengur eins og í sögu.


Mánudagur 19. Maí, 2008
Héldum áfram smíðinni á römmum í dag. Innri spýtur sem móta lögun skúlptúrsins. Pólverjinn David vinnur með okkur og kláraðist að saga líma og skrúfa saman alla rammana 16.

Sunnudagur 18. Maí, 2008.
Tókum okkur smá frí í dag.

Laugardagur 17. Maí, 2008
Höldum áfram vinnu á rammasmíði og settum saman 16 ramma, ytri smíðina. Verkið gengur hratt fyrir sig.

Föstudagur 16. Maí, 2008.
Fyrri partinn í dag tengdumst við á netið sem og í símann í húsinu. Seinnipartinn kom blessaða timbrið loksins og við unnum milli kl. 16:00 og 20:00. Byrjum á rammasmíði.

Fimmtudagur 15. Maí, 2008.
Ian kemur og við orðnir þrír. Erum að bíða eftir að timbrið sé sent frá BYKO. Eitthvað eru þeir með seinagang þarna í BYKO. Á meðan fáum við okkur kaffisopa, her eru þeir, Ian og Shaun:
Miðvikudagur 14. Maí, 2008.
Erum að bíða eftir timbri frá BYKO. Eitthvað hefur dregist með sendinguna en vonandi rætist úr þessu.

Mánudagur 12. Maí, 2008.
Frábært veður, sól og 17c. Í dag kom Shaun Krupa sem starfar fyrir mig. Húsið er ágætt en tómt. Erum að bíða eftir timbursendingu frá BYKO

Kom á Seyðisfjörð Föstudaginn 9. Maí, 2008. Lenti á Egilsstöðum í slyddu og keyrði yfir heiðina ofaní Seyðisfjörð. Það hefur verið snjókoma og slydda fram yfir helgina. Það er ekkert smá vinnuaðstaða sem LV hefur útvegað mér, þrælánægður með alla aðstöðu.
Arrived in Seydsfjörður on May 9th, 2008. Landing in Egilsstaðir in sleet and snow, with the grounds covered in snow throughout the weekend. LV provided me with a heck of a facility, very happy with the whole setting.